Niðurhal
hac 1

Fjarlægð

4,96 km

Heildar hækkun

26 m

Tæknilegir erfiðleikar

Auðvelt

Lækkun

26 m

Hám. hækkun

34 m

Trailrank

51

Lágm. hækkun

1 m

Tegund leiðar

Hringur

Hreyfitími

ein klukkustund 4 mínútur

Tími

ein klukkustund 12 mínútur

Hnit

897

Hlaðið upp

19. júlí 2021

Tekið upp

júlí 2021

Búðu til leiðalistar

Flokkaðu leiðirnar sem þér líkar við í lista og deildu þeim með vinum þínum.

Sækja Wikiloc Premium Uppfæra til að fjarlægja auglýsingar
Búðu til leiðalistar Búðu til leiðalistar
Deila
-
-
34 m
1 m
4,96 km

Skoðað 786sinnum, niðurhalað 5 sinni

nálægt Raufarhöfn, Norðurland Eystra (Ísland)

Þann 10. maí 1940 sigldu breskir hermenn inn höfnina og stigu fyrst á land á Raufarhöfn. Í byrjun þá bjuggu hermennirnir í tjöldum og stóðu vaktir í völdum húsum sem þeir hertóku. Síðar þá byggðu þeir bragga uppi á ásnum vestan við Raufarhöfn sem urðu þeirra höfuðstöðvar. Bresku hermennirnir voru í kringum 50 manns og voru braggarnir því býsna margir, eða á annan tug. Samskipti milli Bretanna og heimamanna voru góð. Sýndu hermennirnir engan yfirgang og áttu þeir nóg af nammi og öðru góðgæti sem þeir voru ósparir á. Árið 1943 þá kom bandaríski herinn og fóru Bretarnir fljótlega eftir komu þeirra. Það sem eftir stendur af veru hermannanna eru nokkrir húsgrunnar af bröggunum, litlar leifar af vegg af einum bragganum, Bretastangirnar, teikningar eftir þá í vitanum og vegur sem Bretarnir lögðu upp ásinn. Samskipti hermananna og heimamanna voru góð og sköpuðust náin kynni, meðal annars eitt hjónaband.

Þessi gönguleið fer yfir sögu hernámsins á Raufarhöfn. Gangan hefst við félagsheimilið Hnitbjörg og gengið er að gamla skólanum, sem var eitt af þeim húsum sem Bretarnir hertóku. Frá skólanum er haldið niður gamla veginn og að höfninni. Gengið er meðfram höfninni og í átt að gömlu götunni þar sem húsin Brunnvör og Friðmundarhús stóðu. Leiðinni er haldið áfram upp Framnesið þar sem Kvöldblik var. Þar er útsýni út hafið gott og varð þessi staðsetning því fyrir valinu hjá hermönnunum að standa vaktir. Farið er suður við Framnesið þar sem tjöld hermannanna stóðu og gengið í átt að Hjaltabakka. Þar er Kottjörnin sem lengi hefur verið leikvöllur barna á Raufarhöfn. Gangan heldur áfram inn í yngsta hluta bæjarins sem var skotæfingarsvæði hermannanna, vegna þess hversu langt svæðið stóð fyrir utan byggðina á þessum tíma. Leiðin liggur út úr þorpinu og upp Nónásinn. Þar standa Bretastangirnar ásamt leifum af bröggum hermannanna. Frá bröggunum er gengið veginn sem Bretarnir gerðu, niður ásinn. Útsýnið þar er gott yfir þorpið og hvergi betra að virða sögu hernámsins á Raufarhöfn fyrir sér. Leiðinni líkur síðan á sama stað og hún byrjaði, við félagsheimilið Hnitbjörg.
Varða

Gamli skólinn

 • Mynd af Gamli skólinn
 • Mynd af Gamli skólinn
Talið er að Gamli Barnaskólinn hafi verið byggður á árunum 1935-1936 og var börnum Raufarhafnar kennt þar fram að 12 ára aldri. Staðsetning skólans þykir nokkuð sérstök þar sem hann var í útjaðri þorpsins, en ekki er vitað hvers vegna skólinn var staðsettur þarna. Skömmu eftir að Raufarhöfn var hernumið árið 1940 þá tóku Bretarnir barnaskólann undir sig. Leifur Eiríksson var formaður skólanefndar Raufarhafnarhrepps á þessum tíma og hitti hann liðsforingjann, sem fór fram á að fá skólann til að vera í. Leifur sagðist hins vegar vilja halda fast um skólann og vildi ekki lána hann. Það þyrfti að mála hann og yrði hann að vera tilbúinn fyrir kennslu um haustið. Liðsforinginn krafðist þess að fá skólann og vildi fá lykilinn. Þá mælti Leifur við liðsforingjann "við erum svo hyggnir Íslendingar að ég vil heldur að við semjum, en að segja kónginum stríð á hendur". Þetta endaði þannig að samið var um að hermennirnir fengju skólann gegn því að ganga vel um hann, borga málningarvinnuna og vera farnir úr húsnæðinu um haustið. Bresku hermennirnir stóðu við orð sín, voru í skólanum yfir sumarið en fóru um haustið og byggðu þá braggana.
Varða

Brunnvör

 • Mynd af Brunnvör
Brunnvör var byggt árið 1927 af Eiði Eiríkssyni. Þegar bresku hermennirnir komu til Raufarhafnar þá fóru þeir fljótlega að leita að húsnæði til að halda vaktir í og hertóku þeir meðal annars kvistherbergi í húsinu Brunnvör. Kvistur þessi sneri í austur og þar stóð vaktmaður þeirra. Hermennirnir stóðu eingöngu vaktir í húsnæðinu en bjuggu ekki þar.
Varða

Friðmundarhúsið

 • Mynd af Friðmundarhúsið
Þó svo að samskiptin á milli hermannanna og heimamanna gengu oftast snurðulaust fyrir sig þá var eitt atvik þar sem ágreiningur kom upp. Atvikið átti sér stað í Friðmundarhúsi sem var á þessum tíma bakarí. Steindór Hannesson vann þar sem bakari og var hann með gistiaðstöðu uppi í kvisti sem var sambyggður bakaríinu. Steindór var drykkfelldur og átti það til að fá sér sopa með hermönnunum. Einn sunnudaginn ákváðu Steindór og einn breskur hermaður að fara á fyllerí saman. Taka þeir viskíkassa með hervaldi og fara upp í kvistherbergi Steindórs. Skyndilega kemur túlkur Bretanna æðandi inn í bakaríið, þar sem Helgi Ólafsson var einn að baka tvíbökur, og segir að þeir séu orðnir brjálaðir. Túlkurinn rauk síðan út og hljóp af öllum krafti yfir tjörn norðan við húsið, sem var full af drullu. Óð hann drulluna upp að hné og tók á rás út á Höfða. Mikil læti komu frá herbergi Steindórs og síðan byssuskot. Hermaðurinn hafði þá skotið upp í loftið á kvistinum. Steindór hafði hins vegar náð að taka riffilinn og henda honum út um gluggann. Bretinn var þá orðinn algerlega brjálaður og varð þetta til þess að tundurspillir kom tveimur dögum síðar til að sækja hermanninn.
Varða

Kvöldblik

 • Mynd af Kvöldblik
 • Mynd af Kvöldblik
 • Mynd af Kvöldblik
 • Mynd af Kvöldblik
Kveldblik (oft kallað Kvöldblik) var byggt árið 1938 af Kristlaugu Guðjónsdóttur og Pétri Björnssyni. Húsnæðið var því tiltölulega nýtt þegar bresku hermennirnir komu árið 1940. Líkt og með Brunnvör þá tóku hermennirnir herbergi í Kvöldbliki og höfðu þar vaktir. Tveir hermenn stóðu vaktirnar þar, á efri hæð hússins. Líklegast hefur húsið orðið fyrir valinu þar sem útsýnið út á hafið var gott og hægt að fylgjast vel með skipum sem sigldu um höfnina, eða fyrir utan staðinn.
Varða

Grýtubakki

 • Mynd af Grýtubakki
Samskipti milli Bretana og heimamanna voru góð, áttu heimamenn viðskipti við Bretana með kola sem þeir veiddu og fengu sælgæti, nælonsokka og fleira í staðinn, sem þeir svo seldu íbúum Raufarhafnar á góðu verði. Lítill kofi var reistur af þeim Jóni Guðmundssyni, Hilmari Ágústssyni og Sveini Jónssyni þar sem varningurinn var seldur og kallaðist búðin Grýtubakki. Grýtubakki stóð á nesinu austan við húsið Kvöldblik.
Varða

Tjaldbúðir hermannanna

 • Mynd af Tjaldbúðir hermannanna
 • Mynd af Tjaldbúðir hermannanna
 • Mynd af Tjaldbúðir hermannanna
Þegar hermennirnir voru komnir á land, fóru þeir að svipast um eftir ákjósanlegum stað fyrir tjöld sín og annan búnað. Slógu þeir sér niður á flötinni austan við dvalarheimilið Vík og sunnan við Framnesið. Þarna voru þeir fyrstu vikurnar eða þangað til þeir tóku barnaskólann undir sig.
Varða

Hjaltabakki

 • Mynd af Hjaltabakki
 • Mynd af Hjaltabakki
 • Mynd af Hjaltabakki
 • Mynd af Hjaltabakki
 • Mynd af Hjaltabakki
 • Mynd af Hjaltabakki
Um hálfa öld þá stóð húsið Hjaltabakki á þessari hæð. Hjaltabakki var byggður í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar árið 1940 af Hjalta Friðgeirssyni. Húsið var byggt fyrir utan skipulag hreppsins og var Hjalta bent á að Þjóðverjar gætu álitið að húsið væri strandvirki sem myndi valda því að það yrði skotið niður. Hjalti var óhræddur við slíkt og byggði húsið á eigin ábyrgð. Styrjöldinni lauk síðan án þess að Hjaltabakki væri sprengdur. Húsið var hins vegar rifið líkt og mörg önnur hús í lok aldarinnar, en eftir stendur myndarlegur bæjarhóllinn.
Varða

Höfðinn

 • Mynd af Höfðinn
 • Mynd af Höfðinn
 • Mynd af Höfðinn
 • Mynd af Höfðinn
 • Mynd af Höfðinn
 • Mynd af Höfðinn
Hermennirnir stóðu einnig vaktir á Höfðanum. Við vaktaskipti þá gengu þeir sandfjöruna sem var fyrir neðan Lundshúsið. Þar var vinnukona sem gerði sér alltaf ferð til að hlaupa út með skólp eða annað rusl sem hún henti í ruslabing við fjöruna, þegar ákveðinn hermaður gekk þar um. Einu sinni þegar hermaðurinn birtist þá var ekkert lauslegt rusl til staðar og greip hún þá kartöflupottinn. Hljóp hún með pottinn í veg fyrir hermanninn og henti úr honum í sjóinn. Kom í ljós að þetta voru kartöflurnar sem ætlaðar voru í hádeigsmatinn. Vinnukonan átti það einnig til að rjúka út og taka inn þvott sem nýbúið var að hengja út, í von um að rekast á hermanninn. Í eitt skiptið þá náði hún spjalli við dátann sem endaði upp við kirkjugarð. Þegar hún kom heim var hún spurð hvort hún hefði skilið manninn eitthvað. Konan svaraði því fljótt að hún hefði skilið allt sem hermaðurinn vildi. Stundum keyrðu hermennirnir upp Höfðann og þurfti þá að opna hlið sem var þar á leiðinni. Þegar hermennirnir komu á bílnum sínum þá komu krakkarnir hlaupandi til að opna hliðið fyrir þeim og fengu þeir nammi í staðinn. Á ljóshúsi vitans eru ýmsar teikningar og skriftir eftir hermennina. Hermennirnir hafa verið að dunda sér í þessu á meðan þeir sátu vaktir í vitanum. Meðal annars má sjá skip, nöfn, fæðingarár, dagsetningar og markmið eins hermannsins; að komast aftur heim í heilu lagi.
Stöðuvatn

Kottjörn

 • Mynd af Kottjörn
 • Mynd af Kottjörn
 • Mynd af Kottjörn
 • Mynd af Kottjörn
 • Mynd af Kottjörn
Kottjörnin er staðsett í hjarta Raufarhafnar og hefur hún lengi verið vinsæll leikvöllur ungra Raufarhafnarbúa. Á sumrin hafa verið stundaðar hornsílaveiðar í tjörninni og oft á tíðum voru smíðaðir flekar sem siglt var með á tjörninni. Á veturna voru skautarnir síðan dregnir fram, þar sem fullorðnir og börn skautuðu saman sér til skemmtunar. Í hólmanum er mikið fuglalíf og hafa ýmsar tegundir fugla verpt þar. Kottjörnin dregur líklega nafn sitt frá bænum Koti sem stóð sennilega á hæðinni handan við tjörnina.
Varða

Vogsholt

 • Mynd af Vogsholt
 • Mynd af Vogsholt
Gatan Vogsholt var ekki komin undir byggð á þessum tíma og æfðu hermennirnir sig að skjóta á holtinu þar sem Vogsholtið stendur núna. Flestir Bretarnir voru ungir menn um tvítugt sem voru þjálfaðir hér á Raufarhöfn.
Varða

Bretastangir

 • Mynd af Bretastangir
 • Mynd af Bretastangir
 • Mynd af Bretastangir
 • Mynd af Bretastangir
 • Mynd af Bretastangir
Bretarnir reistu tvær háar stangir fyrir fjarskiptabúnað sem hafa verið kallaðar Bretastangir og standa þær enn.
Rústir

Braggar

 • Mynd af Braggar
 • Mynd af Braggar
 • Mynd af Braggar
 • Mynd af Braggar
Um haustið árið 1940 þá byggði breski herinn bragga uppi á ásnum vestan við Raufarhöfn. Þarna urðu þeirra höfuðstöðvar sem voru nokkuð stórar, líklega um það bil 10 til 15 braggar og tilheyrandi búnaður. Einn bragginn var eldhús og geymsla undir matvöru. Þar voru geymdar ýmsar kræsingar sem óþekktar voru á borðum heimamanna líkt og ávextir, grænmeti og niðursuðumatur. Annar braggi var samkomusalur þar sem hermennirnir horfðu á bíómyndir og fengu krakkarnir stundum að horfa á með þeim. Bretarnir bjuggu í bröggunum þar til að bandaríski herinn kom árið 1943, en þá var farið að styttast í veru breska hersins hér á landi. Bresku hermennirnir og þeir bandarísku bjuggu saman í bröggunum í nokkra mánuði áður en Bretarnir yfirgáfu staðinn. Kaninn var staðsettur á Raufarhöfn þar til að stríðinu lauk árið 1945 og stóðu braggarnir mannlausir eftir það. Braggarnir brunnu síðan að sumarlagi fljótlega eftir að hermennirnir fóru, enginn veit hvað gerðist en talið er að það hafi verið kveikt í þeim. Mörgum árum eftir að stríðinu lauk þá kom einn hermaðurinn aftur til Raufarhafnar og fór upp á ás til að skoða gamlar slóðir. Maðurinn hét Sidney og tók hann leifar af gamalli hurð af eldavél, til minningar um tímann sem hann varði á staðnum.
Varða

Bretavegur

 • Mynd af Bretavegur
 • Mynd af Bretavegur
 • Mynd af Bretavegur
 • Mynd af Bretavegur
 • Mynd af Bretavegur
Vandi var með neysluvatn uppfrá og þurftu hermennirnir því að flytja vatn úr þorpinu upp á ás. Var einn bíll þeirra sérútbúinn sem vatnsbíll og gat hann skrönglast upp ásinn með fullan tank af vatni. Gerðu Bretarnir veg svo að hægt væri að komast auðveldlega upp að bröggunum. Fór bíllinn upp þennan veg sem að hermennirnir gerðu. Síðar þá hófu þeir miklar framkvæmdir til að ná sér í vatn. Lögðu þeir vatnsleiðslu norður allan ásinn og dældu vatni upp í braggana.

Athugasemdir

  Þú getur eða þessa leið